Daglegt Líf
NÁTTÚRAN, LYKILL TIL AÐ OPNA FJÁRHIRSLU GUÐS ORÐS, 18. apríl
Gef gaum að dásemdum Guðs... dásemdir hans sem fullkominn er ad vísdómi. Job 37, 14-16 DL 114.1
Öllu ríki náttúrunnar er ætlað að túlka það sem Guðs er. Í Edenheimilinu var náttúran Adam og Evu full af þekkingunni á Guði, full af guðlegri fræðslu. Hún var eftirtektarsömum eyrum þeirra hljómandi af rödd viskunnar. Spekin talaði til augans og hún var meðtekin í hjartað því þau höfðu samband við Guð í sköpunarverki hans... Guð hefur lagt lykil til að opna fjárhirslu orðs síns í hendur mannanna barna þar sem ríki náttúrunnar er. Hið ósýnilega er skýrt með því sem séð er. Guðleg viska, eilífur sannleikur og óendanleg náð skiljast af því sem Guð hefur búið til. 41 DL 114.2
Eins og íbúar Edenar lærðu af spjöldum náttúrunnar, eins og Móse greindi rithönd Guðs á arabisku sléttunum og fjöllunum og barnið Jesú á hlíðum Nazaret, geta börnin í dag lært af honum... Á öllu sem á jörðunni er, frá hinu hæsta tré skógarins til sveppsins sem loðir við steininn, frá víðu úthafi til hinnar örsmæstu skeljar á ströndinni geta þau séð mynd og yfirskrift Guðs. 42 DL 114.3
Þetta eru leyndardómar sem hugurinn styrkist af að rannsaka... Allir geta fundið efni til rannsókna í... frjóöngum grassins sem þekur jörðina með sínu græna teppi, í jurtum og blómum... háum fjöllum, granítklettum... hinum dýrmætu ljósperlum sem prýða himininn, hinum ótæmandi auðlindum sólarljóssins, hinni hátignarlegu vegsemd tunglsins, vetrarkuldanum, sumarhitanum, hinum breytilegu árstíðum, í fullkominni reglu og samræmi undir stjórn óendanlegs máttar. Þetta eru efni sem krefjast djúprar hugsunar, áreynslu ímyndunaraflsins. 43 DL 114.4