Daglegt Líf

363/366

TJALDIÐ VERÐUR DREGIÐ TIL HLIÐAR, 28. desember

Því að nú sjáum vér svo sem í skuggsjá í óljósri mynd, en þá augliti til auglitis. 1. Kor. 13, 12 DL 368.1

Hvílíkt svið verður opnað okkur til rannsóknar þegar tjaldið sem myrkvar sýn okkar verður dregið til hliðar og augu okkar fá að líta fegurð þess heims sem við sjáum örlítið leiftur af í smásjá og er við lítum undur himnanna sem við greinum núna í gegnum stjörnukíki, þegar blettur syndarinnar verður fjarlægður og öll jörðin birtist í “fegurð Drottins Guðs vors!” Þá getur vísindamaðurinn lesið frásögnina um sköpunina og greinir þá ekkert sem minnir á lögmál hins illa. Hann getur hlýtt á raddir náttúrunnar leika tónlist sína án þess að greina nokkra nótu sorgar eða eymdar. Í öllu sköpunarverkinu getur hann þá greint eitt letur — um allar óravíddir alheimsins getur hann greint “nafn Guðs ritað stórum stöfum,” og ekki eitt merki um hið illa eftir á jörðu eða á himni eða í hafinu... DL 368.2

Sá sem nemur sögu mun þá finna óendanlegt afhafnarsvið og óútmálanlega auðlegð. Nemandinn fær með orð Guðs til hliðsjónar yfirlit yfir hin víðu svið sögunnar og getur öðlast þekkingu um þær meginreglur sem ráða í mannlegum viðbrögðum. En sjón hans er enn skyggð og þekking hans ófullkomin. Það er ekki fyrr en hann stendur við ljós eilífðarinnar að hann mun sjá alla hluti skýrt og greinilega... DL 368.3

Tjaldið sem skilur að hinn ósýnilega og hinn sýnilega heim mun verða dregið til hliðar og undursamlegir hlutir verða opinberaðir... DL 368.4

Þá munu allir þeir sem hafa unnið af óeigingirni fá að sjá ávöxt erfiðis síns. Þá mun sjást til hvers hver rétt meginregla og göfug dáð hefur leitt... En hvað sá sem framkvæmir göfugasta verk heimsins fær lítið að sjá afleiðingar verka sinna í þessu lífi! Foreldrar og kennarar leggjast til hinstu hvíldar. Lífsstarf þeirra virðist hafa verið unnið fyrir gýg. Þeir vita ekki að trúmennska þeirra hefur orðið uppspretta blessana sem aldrei haettir að streyma... Og áhrifin endurtaka sig þúsund sinnum... Í eilífðinni munu áhrif og enduráhrif alls þessa koma í ljós. 71 DL 368.5