Daglegt Líf
LIFANDI DÆMI UM HELGUN, 2. September
Þér menn elskið konur yðar að sínu leyti eins og Kristur elskaði söfnuðinn og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hann til þess fyrir vatnslaugina með orðinu að hreinsa hann og helga hann síðan til þess sjálfur að framleiða handa sér dýrðlegan söfnuð sem ekki hefði blett eða hrukku eða neitt þess háttar heldur vœri heilagur og lýtalaus. Ef. 5, 25-27 DL 251.1
Hér kemur fram biblíuleg helgun. Hún er ekki einungis til þess að sýnast eða á yfirborðinu. Það er helgun sem veitist fyrir atbeina sannleikans. Það er sannleikur meðtekinn í hjarta og iðkaður í lífinu. DL 251.2
Sem maður var Jesús fullkominn en samt óx hann í náð. Lúk. 2, 52: “Og Jesús óx að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.” Jafnvel hinn fullkomnasti kristinn maður getur vaxið stöðugt í þekkingu og kærleika til Guðs... DL 251.3
“En vaxið í náð og þekkingu Drottins vors Jesú Krists. Honum sé dýrð bæði nú og um aldur. Amen.” DL 251.4
Helgun er ekki augnabliksverk, stundar eða dags. Hún er stöðugur vöxtur í náð. Við vitum ekki í dag hversu baráttan verður hörð á morgun. Satan lifir og er virkur og á hverjum degi þurfum við að hrópa ákaft til Guðs um hjálp og styrk til þess að vinna í gegn honum. Svo lengi sem Satan ríkir þurfum við að aga okkur sjálf, sigra freistingar og í því máli er engin biðstaða, við komumst ekki í þá stöðu þar sem við getum sagt að við höfum að fullu náð markinu... DL 251.5
Líf hins kristna er stöðug ganga fram á við. Jesús situr og bræðir og hreinsar silfrið í fólki sínu og þegar mynd hans endurspeglast fullkomlega í þeim eru þau fullkomin og heilög og tilbúin til að vera ummynduð. 3 DL 251.6
Hver lifandi kristinn maður mun taka framförum daglega í hinu guðlega lífi. Er hann gengur fram til fullkomnunar snýst hann til Guðs á hverjum degi og þessu afturhvarfi lýkur ekki fyrr en hann nær fullkomnun kristilegrar lyndiseinkunnar og hlýtur lokaundirbúning fyrir síðustu snertingu ódauðleikans. 4 DL 251.7