Daglegt Líf

206/366

VINÁTTAN MILLI PÁLS OG TÍMÓTEUSAR, 24. júlí

Til Tímóteusar, elskaðs sonar. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú Drottni vorum... Ég þrái nótt og dag að sjá þig... til þess að ég fyllist gleði. Tím. 1, 2-4 DL 211.1

Páll fór úr dómsal keisarans inn í klefa sinn og gerði sér grein fyrir því að hann hefði aðeins fengið stundarhlé. Hann vissi að óvinir sínir mundu ekki unna sér hvíldar fyrr en þeir höfðu komið honum í gröfina. DL 211.2

Þar sem Páll sat dag eftir dag í dimmum klefa sínum og vissi að við eitt orð eða bending frá Neró yrði lífi hans fórnað hugsaði hann um Tímóteus og ákvað að senda eftir honum. Tímóteusi hafði verið falið að sjá um söfnuðinn í Efesus og hann hafði því verið skilinn eftir þegar Páll fór í síðustu ferð til Rómar. Páll og Tímóteus voru tengdir saman óvenjulega djúpum og sterkum kærleiksböndum. Síðan Tímóteus snerist til trúar hafði hann tekið þátt í starfinu með Páli og liðið illt með honum og vinátta þeirra tveggja hafði orðið sterkari og sterkari og helgaðri og helgaðri þar til að allt það sem sonur gat verið ástríkum og tignuðum föður var Tímóteus þessum aldraða og þreytta postula. Það er ekki að undra þó að Páll í einmanaleik sínum hafi þráð að sjá hann. DL 211.3

Það hlaut að taka Tímóteus marga mánuði við bestu aðstæður að komast til Rómar frá Litlu-Asíu. Páll vissi að óvíst var um líf sitt og hann óttaðist að Tímóteus mundi koma of seint til þess að sjá hann. Hann hafði þýðingarmikil ráð og fræðslu að gefa þessum unga manni sem hafði verið falin svo mikil ábyrgðarstörf. Og meðan hann var að hvetja hann til að koma án tafar las hann fyrir síðasta vitnisburð sinn ef vera kynni að hann fengi ekki að mæla við vin sinn í eigin persónu. Sál hans var fyllt af þrá eftir syni sínum í trúnni og eftir þeim söfnuði sem honum hafði verið falið að annast. Páll reyndi að brýna fyrir Tímóteusi þýðingu þess að vera sannur því sem honum hafði verið trúað fyrir... Páll lauk bréfi sínu með því að fela Tímóteus undir vernd yfirhirðisins sem mundi annast hjörð sína þó að undirhirðarnir létu lífið. 67 DL 211.4