Frá Ræðustóli Náttúrunnar
“Hver sem pví brýtur eitt af þessum minstu boðorðum, og kennir mönnum það, hann mun verða kallaður minstur í himnaríki.”
Það er að skilja: hann kemst þangað ekki; því að sá, sem brýtur viljandi eitt boðorð, heldur ekkert af þeim í anda og sannleika. “Þótt einhver hjeldi alt lögmálið, en hrasaði í einu atriði, þá er hann orðinn sekur við öll boðorð þess”. Jak. 2, 10. FRN 72.1
Syndin er ekki fólgin í stærð óhlýðniverksins, heldur í því að víkja frá augljósum vilja Guðs í hversu smávægilegu atriði sem er; því þetta sýnir að hjartað er enn ekki laust við syndina. Það er tvískift í þjónustu sinni. Maður afneitar Guði og rís í gegn lögum ríkis hans. FRN 72.2
Ef mennirnir hefðu frjálsræði til þess að víkja frá kröfum Drottins og ákveða sjálfir skyldur sínar, þá mundi verða mikið af margskonar reglum, sniðnum eftir vild einstaklingsins, og stjórnin mundi verða tekin úr höndum Drottins. Vilji mannanna mundi ráða, og Guðs háleiti og heilagi vilji — kærleiksráðstöfun hans áhrærandi það, sem hann hefir skapað — mundi verða lítilsvirt og látin sitja á hakanum. FRN 72.3
Í hvert sinn er mennirnir ganga sína eigin götu, rísa þeir gegn Guði. Þeir komast ekki inn í heimnaríki vegna þess að þeir eru í ósamræmi við reglur himinsins. Með því að láta Guðs vilja lúta í lægra haldi, ganga þeir í lið með Satan, sem er óvinur Guðs og manna. Það er ekki aðeins nokkur hluti Guðs orðs, sem mönnunum er ætlað að lifa af, heldur alt orð hans. Án hættu getum vjer ekki lítilsvirt eitt af orðum hans, hversu þýðingarlítið sem það kann að vera í vorum augum. Það er ekki neitt það boðorð til í lögmálinu, að það miði eigi að velferð mannanna og hamingju bæði í þessu lífi og hinu komandi. Þegar mennirnir framganga í hlýðni við lögmál Guðs, þá eru þeir umluktir varnargarði, er ver þá fyrir hinu illa. Sá, sem brýtur skarð í þennan varnargarð, þó ekki sje nema á einum stað, hefir gjört hann ónýtan til varnar; því að hann hefir opnað óvininum leið og hann fer inn fyrir múrinn og kemur til vegar tjóni og eyðingu. FRN 72.4
Með því að dirfast að brjóta móti Guðs vilja í einu atriði, opnuðu vorir fyrstu foreldrar óhamingjunni leið svo að hún steyptist sem flóðalda yfir heiminn. Hver sá, sem fer að dæmi þeirra mun og skera hið sama upp og þau gjörðu. Það er kærleikur Guðs, sem liggur til grundvallar sjerhverju boðorði í lögmáli hans, og sá sem víkur frá boðorðunum, stuðlar að sinni eigin óhamingju og eyðingu. FRN 73.1