Daglegt Líf

98/366

ÉG VERÐ AÐ VAXA Í NÁÐ, 7. apríl

En vaxið í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists. 2. Pét. 3, 18 DL 103.1

Guð krefst þess að hver maður ávaxti allar gjafir náðarinnar sem himinninn hefur látið í té og verði æ duglegri í starfi Guðs. Það hefur að öllu leyti verið séð fyrir því að guðhræðsla, hreinleiki og kærleiki hins kristna aukist sífellt, að talentur hans tvöfaldist og hæfileiki hans aukist í þjónustu hins guðlega meistara. Þó að séð hafi verið fyrir þessu láta margir, sem játast trúa á Jesú, þetta ekki í ljósi með vexti sem vitnar um hinn helgandi mátt sannleikans á líf og lunderni. Þegar við fyrst meðtökum Jesúm í hjörtu okkar erum við hvítvoðungar í trúnni. En við eigum ekki að halda áfram að vera hvítvoðungar í reynslu. Við eigum að vaxa í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists. Við eigum að ná fullu vaxtartakmarki karla og kvenna í honum. Við eigum að taka framförum, að eignast nýja og auðuga reynslu fyrir trú, að vaxa í trúnaði og trausti og kærleika, að þekkja Guð og Jesús Krist sem hann sendi. 13 DL 103.2

Verk ummyndunarinnar frá saurgun til heilagleika staðnar ekki. Guð vinnur að helgun mannsins dag eftir dag og maðurinn á að samstarfa með honum og leggja sig fram af þolgæði til að rækta réttar venjur. Hann á að bæta náð við náð og er hann vinnur samkvæmt þessari áætlun að bæta við mun Guð margfalda. Frelsari okkar er ávallt reiðubúinn að heyra og svara bæn sáriðrandi hjarta og friður og náð margfaldast handa hans trúu. Með gleði veitir hann þeim þær blessanir sem þeir þurfa í baráttu þeirra gegn hinu illa sem umkringir þá... Dýrleg er vonin fyrir hinum trúaða er hann heldur áfram fyrir trú að hæðum kristilegrar fullkomnunar. 14 DL 103.3