Daglegt Líf

293/366

KRISTUR ER MÉR FULLKOMIÐ FORDÆMI, 19. október

Til þessa eruð þér kallaðir því að Kristur leið einnig fyrir yður og eftirlét yður fyrirmynd til þess að þér skylduð feta í hans fótspor. Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í hans munni. 1. Pét. 2, 21. 22 DL 298.1

Kristur er fordæmi okkar í öllum hlutum. Það var af forsjón Guðs að hann lifði fyrri hluta ævi sinnar í Nazaret en þar voru íbúarnir þess eðlis að hann var stöðugt undirorpinn freistingum og það var honum nauðsynlegt að vera á verði til þess að vera hreinn og svikalaus innan um synd og óguðleika. Kristur valdi ekki þennan stað sjálfur. Hinn himneski faðir valdi þennan stað fyrir hann þar sem reyna mundi á lunderni hans á ýmsa vegu. Á fyrra hluta ævi sinnar var Kristur undirorpinn miklum reynslum, erfiðleikum og baráttu svo að hann gæti þroskað þá fullkomnu skapgerð sem gerir hann að fullkomnu fordæmi fyrir börn, ungmenni og fullorðna... DL 298.2

Líf Krists átti að sýna að hreinleiki, staðfesta og stöðuglyndi eru ekki háð því að við séum laus við erfiðleika, fátækt og mótlæti. Kristur þoldi án mögls reynslur þær og erfiðleika sem svo mörg ungmenni kvarta yfir. Og þetta er einmitt sá agi sem ungmenni þarfnast, sem mun gefa skapgerð þeirra festu og gera þau Kristi lík, sterk í anda til þess að standast freistingu. Ef þau forðast áhrif þeirra sem leiða afvega og spilla siðgæði þeirra munu þau ekki láta blekkjast af tálsnörum Satans. Fyrir daglega bæn til Guðs munu þau öðlast visku og náð frá honum til að þola baráttu lífsins og erfiðleika og vinna sigur. Trúmennsku og alvöru hugans er aðeins hægt að halda við með því að vaka og biðja. Líf Krists var dæmi um mátt sem lét ekki undan síga, sem missti ekki styrkinn af ávítum, hæðni, skorti eða erfiðleikum... Kraftur þeirra, staðfesta og þol mun vaxa og þau styrkjast í anda að sama skapi og þau varðveita heiðarleika lundernisins þrátt fyrir vonbrigði. 58 DL 298.3