Daglegt Líf

179/366

TRAUST ÞÝÐIR ÖRYGGI, 27. júní

Því hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð. Hann óttast eigi ill tíðindi. Hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni. Sálm. 112, 6. 7 DL 184.1

Guð hefur gefið í orði sínu nægilegan vitnisburð um guðlegt eðli þess. Hin miklu sannindi sem snerta endurlausn okkar eru skýrt fram sett. Fyrir hjálp Heilags anda sem er heitinn öllum sem leita hans í einlægni getur hver maður skilið þessi sannindi sjálfur. Guð hefur veitt mönnum sterkan grundvöll til þess að byggja á trú sína. DL 184.2

Samt er takmarkaður hugur manna ónógur til þess að skilja til hlýtar áform og tilgang hins óendanlega. Við getum aldrei með rannsókn komist til botns í Guði. Við megum ekki freista þess að lyfta með ofdirfskufullri hendi því tjaldi sem skýlir hátign hans. Postulinn segir: “Hversu órannsakandi eru dómar hans og órekjandi vegir hans!” Við getum skilið nógu mikið af afskiptum hans af okkur og þeim hvötum sem á bakvið liggja svo að við getum greint þar takmarkalausan kærleika og náð samfara óendanlegum mætti. Okkar himneski faðir skipar fyrir í öllum hlutum af speki sinni og réttlæti og við eigum ekki að vera óánægð eða vantreysta honum heldur beygja okkur í auðmýkt og undirgefni. Hann mun opinbera okkur svo mikið af tilgangi sínum sem gott er fyrir okkur að vita og þar fyrir utan verðum við að treysta þeirri hendi sem er almáttug og því hjarta sem er fullt af kærleika. DL 184.3

Þó að Guð hafi gefið okkur nægar ástæður til að trúa mun hann aldrei fjarlægja allar afsakanir fyrir vantrú. Allir sem leita að snögum til að hengja efasemdir sínar á munu finna þá. DL 184.4

Vantraust á Guði er eðlilegur ávöxtur hins óendurfædda hjarta sem er í andstöðu við hann. En Heilagur andi gefur okkur trú og hún mun dafna því aðeins að hlúð sé að henni. Enginn maður getur orðið styrkur í trúnni án þess að sýna viðleitni... Við getum því aðeins verið örugg að við treystum Guði í auðmýkt og hlýðum öllum boðorðum hans. 86 DL 184.5