Daglegt Líf

176/366

KÆRLEIKURINN LÆKNAR MÖRG SÁR, 24. júní

Þér elskaðir, elskum hver annan því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er af Guði fœddur og þekkir Guð. 1. Jóh. 4, 7 DL 181.1

Frá sjónarmiði hins kristna er kærleikurinn máttur. Það er bæði vitsmunalegur og andlegur styrkur fólginn í þessari meginreglu. Hreinn kærleikur hefur sérstakan mátt til að gjöra gott og getur ekkert gjört nema gott. Hann kemur í veg fyrir deilur og eymd og leiðir af sér sanna hamingju. Auður veldur oft spillingu og skemmd. Að beita krafti leiðir oft til skaða en sannleikur og gæska eru eigindir hins sanna kærleika. 77 DL 181.2

Maður sem hefur frið við Guð og samferðamennina getur ekki legið í eymd. Öfund býr ekki í hjarta hans. Illkvittni á þar engan sess. Hatur getur ekki verið þar. Hjartað sem er í samræmi við Guð er hafið yfir leiðindi og reynslur þessa lífs. 78 DL 181.3

Það sem Satan gróðursetur í hjartanu — öfund, afbrýðisemi, illkvittni, illt umtal, óþolinmæði, fordóma, eigingirni, ágirnd og hégóma — verður að uppræta. Ef þetta fær að vera í friði í sálinni mun það bera ávöxt sem margir saurgast af. Ó, hversu margir rækta eiturjurtir sem drepa hina dýrmætu ávexti kærleikans og setja blett á sálina! 79 DL 181.4

Aðeins sá kærleikur sem kemur frá hjarta Krists getur læknað. Aðeins Kristur sem hefur í sér þennan kærleika, rétt eins og tréð safann og líkaminn blóðið, getur endurreist særða sál. DL 181.5

Öfl kærleikans hafa undursamlegan mátt því þau eru öll frá Guði komin. Mjúkt andsvar sem “stöðvar bræði,” kærleikurinn sem er “langlyndur, hann er góðviljaður,” kærleikurinn sem “hylur fjölda synda” — vildum við læra þessar lexíur, hvílíkum lækningamætti yrði líf okkar gætt! En hve lífið myndi breytast og jörðin verða sem himinninn eða forsmekkur hans! 80 DL 181.6