Daglegt Líf
FEGURÐ NÁTTÚRUNNAR, 20. júní
Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim er hafa unun af þeim... hann hefur látið dásemdaverka sinna minnst verða. Sálm. 111, 2-4 DL 177.1
Guð sem gerði heimilið í Eden handa okkar fyrstu foreldrum svo óviðjafnanlegt og yndislegt hefur einnig gefið okkur tíguleg tré, fögur blóm og allt sem yndislegt er í náttúrunni til að stuðla að hamingju okkar. 64 DL 177.2
Hvert sem við snúum okkur sjáum við merki um hina fyrstu fegurð. Hvert sem við höldum getum við heyrt raustu Guðs og greint handaverk hans... DL 177.3
Tíu þúsund raddir náttúrunnar lofa hann. Við sjáum dýrð hans á jörðunni, í loftinu og í himninum í undraverðri og margbreytilegri litadýrð þeirra. Hæðirnar eilífu segja frá mætti hans. Trén láta græna fána sína blakta í sólskininu og benda okkur upp á við til skapara síns. Blómin sem skrýða jörðina með fegurð sinni hvísla til okkar um Eden og fylla okkur af þrá eftir ófölnandi fegurð hennar. Græni lífliturinn sem þekur brúna jörðina segir okkur frá umhyggju Guðs fyrir hinum lítilmótlegustu skepnum sínum. Sjávarhellar og jarðardjúpin opinbera fjársjóði hans. Hann sem setti perlurnar í úthafið og ametyststeina og krísolíta meðal klettanna elskar það sem fagurt er. Sólin sem rís á himninum er fulltrúi hans sem er ljós og líf alls þess sem hann hefur gjört. Öll sú birta og fegurð sem skrýðir jörðina og lýsir upp himnana talar um Guð. DL 177.4
Eigum við, er við njótum gjafanna, að gleyma gjafaranum? Þær ættu frekar að leiða okkur til að íhuga gæsku hans og kærleika. Allt það sem er fagurt í okkar jarðneska heimili ætti að minna okkur á kristaltærar árnar og græna akra, svignandi tré og lifandi lindir, bjarta borg og hvítklædda söngvara í okkar himneska heimili — heimi þeirra fegurðar sem enginn listamaður getur fest á blað og enginn dauðleg tunga megnar að lýsa. 65 DL 177.5