Boðskapur til safnaðarins, vol. 2

32/32

Kafli 66— „Sjá, ég kem skjótt”

Nýlega vakti Heilagur andi athygli mína á því í nætursýn að ef Drottinn er að koma eins skjótt og við trúum ættum við að vera virkari en við höfum verið á liðnum árum í því að koma sannleikanum til fólksins. BS2 426.1

Í þessu sambandi leitaði hugur minn til starfsemi aðventista á árunum 1843 og 1844. Á þeim tíma var mikið um heimsóknir og gengið frá húsi til húss og af óþreytandi elju unnu menn að því að vara menn við þeim hlutum sem talað er um í orði Guðs. Nú ættum við að leggja enn meira á okkur en þeir gerðu sem boðuðu boðskap fyrsta engilsins svo trúverðuglega. Við nálgumst skjótlega endi heimssögunnar og er við gerum okkur grein fyrir því að Jesús er í sannleika að koma ættum við að vakna til starfs af meiri elju en nokkru sinni fyrr. Við erum beðin að láta viðvörunarhljóm heyrast til fólksins. Og í lífi okkar eigum við að sýna mátt sannleikans og réttlætisins. Heimurinn mun skjótlega mæta löggjafanum mikla með fótum troðið lögmál hans. Þeir einir sem snúa sér frá synd til hlýðni geta haft von um fyrirgefningu og frið. BS2 426.2

Ó, hversu mikið gott mætti framkvæma ef allir þeir sem hafa sannleikann, orð lífsins, mundu starfa til þess að upplýsa þá sem hafa það ekki. Þegar Samverjarnir komu til Krists eftir beiðni samversku konunnar talaði Kristur um þá við lærisveina sína sem kornakur tilbúinn til uppskeru. „Segið ekki: enn eru þrír mánuðir til uppskerunnar.” Hann sagði: „Hefjið upp augu yðar og lítið á akrana þeir eru þegar hvítir til uppskeru.” Jóh. 4, 35. Kristur dvaldi með Samverjum í tvo daga því þeir voru hungraðir eftir að heyra sannleikann. Og mikið hafði Kristur að gera þessa daga. Og vegna starfs Krists þessa daga „tóku miklu fleiri trú fyrir orð hans.” Og þetta var vitnisburður þeirra: „Sjálfir höfum við heyrt og vitum að þessi maður er í sannleika frelsari heimsins.” 41. 42. vers.1 BS2 426.3

„Lausn yðar er í nánd”

Er ég heyri um þau skelfilegu slys sem gerast viku eftir viku spyr ég sjálfan mig: „Hvað merkja þessir hlutir.” Skelfilegustu slys gerast skjótt hvert á eftir öðru. Hversu oft heyrum við um jarðskjálfta og fellibylji, um eyðingu af völdum elds og vatns samfara manntjóni og eigna. Augljóslega eru í þessum voðaviðburðum að því er virðist óskipuleg öfl að brjótast út á tilviljunarkenndan hátt en í þeim má lesa tilgang Guðs. Þeir eru eitt af tækjum Guðs sem hann notar til að leitast við að vekja karla og konur til að skynja hættu sína. BS2 427.1

Koma Krists er nær en þegar fyrst við trúðum. Deilan mikla er að nálgast endalok sín. Dómar Guðs eru komnir yfir landið. Þeir tala alvarlegum viðvörunarorðum og segja: „Fyrir því skuluð þér og vera viðbúnir, því að mannsonurinn kemur á þeirri stundu er þið eigi ætlið.” Matt. 24, 44. BS2 427.2

En það eru margir, margir í söfnuðum okkar, sem þekkja lítið hina raunverulegu merkingu sannleikans fyrir þessa tíma. Ég hvet þá til þess að loka ekki augunum fyrir táknum tímanna sem eru að uppfyllast og segja svo skýrt að endirinn sé nálægur. Ó, hversu margir sem hafa ekki leitað eftir hjálpræði sála sinna munu bráðlega hafa yfir hina beisku kveinstafi: „Uppskeran er liðin og aldinskurðurinn á enda og við höfum ekki hlotið hjálp!” BS2 427.3

Við lifum á lokastundum sögu þessarar jarðar. Spádómarnir uppfyllast hratt. Stundir náðartímans líða hratt. Við höfum engan tíma — ekki augnablik — sem við megum missa. Við skulum ekki láta finna okkur sofandi á verðinum. Enginn segi í hjarta sínu eða með verkum sínum: „Herra mínum dvelst.” Látið boðskapinn um skjóta endurkomu Krists hljóma í einlægum viðvörunarorðum. Við skulum telja karla og konur alls staðar á að iðrast og flýja undan komandi reiði. Vekjum þau til tafarlauss undirbúnings. Við vitum lítið hvað framundan er. Prestar og leikmenn ættu að ganga fram og fara út á akrana tilbúna til uppskeru og hvetja hina áhugalausu og kærulausu til að leita Drottins meðan hann er að finna. Starfsmennirnir munu finna uppskeru sína hvar sem þeir boða hin gleymdu sannleiksatriði Biblíunnar. Þeir munu finna þá sem munu veita sannleikanum viðtöku og helga líf sitt því að vinna sálir fyrir Krist. BS2 427.4

Drottinn kemur brátt og við verðum að vera undir það búin að mæta honum í friði. Ákveðum að gera allt í okkar valdi til að veita ljós þeim sem í kringum okkur eru. Við eigum ekki að vera döpur, heldur glaðleg, og hafa stöðugt Drottin Jesú fyrir hugskotssjónum. Hann kemur skjótlega og við eigum að vera tilbúin og bíða eftir komu hans. Ó, hversu dýrðlegt verður að sjá hann og vera boðin velkomin sem hin endurleystu. Lengi höfum við beðið en við höfum ekki dofnað í voninni. Ef við aðeins getum séð konunginn í fegurð hans munum við að eilífu hljóta blessun. Mér finnst ég verða hrópa hátt: „Á leið heim!” Við nálgumst tímann er Jesús kemur í mætti og mikilli dýrð til þess að taka hina endurleystu til eilífðarheimkynna þeirra. BS2 427.5

Í hinu mikla lokastarfi munum við mæta erfiðleikum sem við vitum ekki hvernig á að fást við en gleymum því ekki að hinar þrjár voldugu verur á himnum eru að vinna, að guðleg hönd er á stjórnvölnum og að Guð mun láta fyrirheit sín uppfyllast. Hann mun safna saman úr heiminum fólki sem mun þjóna honum í réttlæti.2

BS2 428.1

Fyrirheit um sigur

Ég bið ákaft um það að verkið sem við vinnum á þessum tíma hafi mikil áhrif á hjarta, huga og sál. Erfiðleikarnir munu aukast en látum okkur sem fylgjendur Guðs hvetja hvert annað. Við skulum ekki lækka staðalinn heldur lyfta honum hátt upp og líta á hann sem er höfundur og fullkomnari trúar okkar. Þegar ég get ekki sofið á nóttinni lyfti ég hjarta mínu í bæn til Guðs og hann styrkir mig og veitir mér fullvissu um það að hann sé með þjónum sínum bæði á heimasvæðunum og í fjarlægum löndum. Ég hlýt blessun og uppörvun er ég geri mér grein fyrir því að Guð Ísraels leiðir enn lýð sinn og hann mun halda áfram að vera með honum allt til endalokanna. BS2 428.2

Drottinn vill að við sjáum að það starf að boða boðskap þriðja engilsins mun halda áfram með vaxandi krafti. Eins og hann hefur unnið á öllum öldum að veita fólki sínu sigur þannig þráir hann á þessum tíma að leiða til sigurs tilgang sinn með söfnuðinn... Hann biður fylgjendur sína að ganga fram í einingu og í vaxandi styrk og frá trú til aukinnar fullvissu og trausts á sannleikanum og réttlætis málstaðar hans. BS2 428.3

Við eigum að standa föst sem klettur á meginreglum orðs Guðs og muna það að Guð er með okkur til að gefa okkur styrk til að mæta hverri reynslu. Við skulum ávallt halda uppi í lífi okkar meginreglum réttlætisins til þess að við getum gengið áfram til síaukins styrks í nafni Drottins. Við eigum að telja heilaga þá trú sem okkur hefur veist fyrir fræðslu Anda Guðs allt frá okkar fyrstu dögum og fram á þennan tíma. Við eigum að elska það verk sem Drottinn hefur framkvæmt fyrir lýð sinn sem boðorðin heldur og mun verða sterkara fyrir kraft náðar hans og virkara eftir því sem tíminn líður. Óvinurinn er að leitast við að myrkva skilning Guðs fólks og veikja áhrifamátt þeirra. En ef þau vilja starfa eins og Andi Guðs leiðir þau mun hann opna dyr tækifæranna fyrir þeim til að vinna að því að byggja upp þá staði sem legið hafa í rústum. Þeir munu vaxa stöðugt þar til Drottinn mun stíga niður með mætti og mikilli dýrð til þess að setja innsigli lokasigurs á sína trúuðu. BS2 428.4

Það starf sem fyrir liggur mun reyna á hvern hæfileika mannverunnar til hins ýtrasta. Það mun kalla á að við sýnum sterka trú og stöðuga árvekni. Stundum munu erfiðleikarnir sem við munum mæta valda okkur miklum áhyggjum. Sjálft umfang starfsins mun skelfa okkur. En samt munu þjónar Guðs að lokum sigra með hans hjálp. „Fyrir því bið ég,” bræður mínir,” að þér látið eigi hugfallast” (Ef. 3, 13) í þeim erfiðu reynslum sem framundan liggja. Jesús mun vera með ykkur. Hann mun ganga á undan ykkur fyrir Heilagan anda sinn og undirbúa leiðina. Og hann mun hjálpa ykkur í hverri nauð. BS2 429.1

„En honum, sem eftir þeim krafti sem í oss verkar, megnar að gera langsamlega fram yfir allt það, sem við biðjum eða skiljum, honum sé dýrð í söfnuðinum og í Kristi Jesú um öll æviskeið öld eftir öld. Amen.” Ef. 3, 20. 21.3 BS2 429.2

Atburðir sem ég hef nýlega séð í nætursýnum hafa haft mikil áhrif á mig. Það virðist vera mikil hreyfing — vakningastarf — sem átti sér stað á mörgum stöðum. Fólk okkar var að skipa sér í fylkingu og svara kalli Guðs. Bræður mínir, Drottinn er að tala til ykkar. Eigum við ekki að hlýða raustu hans? Eigum við ekki að búa lampa okkar og koma fram eins og menn sem vænta þess að herrann komi? Tíminn er slíkur að hann kallar á það að við berum ljósið, að við stígum fram til athafna. BS2 429.3

„Ég ... áminni yður þess vegna að hegða yður svo sem samboðið er kölluninni, sem þið voruð kallaðir með, að sýna í hvívetna lítillæti og hógværð og langlyndi svo að þér umberið hver annan í kærleika og kappkostið að varðveita eining Andans í bandi friðarins.” Ef. 4, 1—4 BS2 429.4

Bróðir minn, systir mín, ég hvet ykkur til þess að búa ykkur undir komu Krists í skýjum himnanna. Dag eftir dag skuluð þið varpa kærleika heimsins út úr hjörtum ykkar. Lærið að skilja af reynslu hvað það þýðir að hafa samfélag við Krist. Búið ykkur undir dóminn svo að þegar Kristur kemur og allir trúaðir sýna honum aðdáun þá getið þið verið á meðal þeirra sem mæta honum í friði. Á þeim degi munu þeir endurleystu skína af dýrð föðurins og sonarins. Englarnir munu snerta gullhörpur sínar og bjóða konunginn velkominn og sigurlaun hans — þá sem hafa verið hvítþvegnir í blóði lambsins. Sigursöngurinn mun hljóma og fylla allan himininn. Kristur hefur sigrað. Hann gengur í himinsali í fylgd með endurleystum sem bera vitni um það að þjáning hans og fórn hafa ekki verið til einskis. BS2 430.1

Upprisa og uppstigning Drottins er öruggur vottur um sigur barna Guðs yfir dauða og gröf og pantur þess að himinninn er opinn þeim er þvo skikkjur lundernisins og gera þær hvítar í blóði lambsins. Jesús steig upp til föðurins sem fulltrúi mannkynsins og Guð mun láta þá sem endurspegla mynd hans sjá dýrð hans og eiga hlutdeild í henni. BS2 430.2

Þar eru heimili fyrir pílagríma jarðarinnar. Þar eru skikkjur fyrir réttláta ásamt dýrðarkórónum og sigurpálmum. Allt það sem í forsjón Guðs hefur verið okkur flókið mun verða gert skýrt í hinum komandi heimi. BS2 430.3

Það sem erfitt hefur verið að skilja mun þá verða útskýrt. Leyndardómar náðarinnar munu þá opnast fyrir okkur. Þar sem hinn skammsýni hugur okkar fann aðeins ringulreið og rift fyrirheit munum við sjá hið fullkomnasta og fegursta samræmi. Við munum sjá að óendanlegur kærleikur fyrirskipaði þær reynslur sem virðast hafa verið erfiðastar. Þegar við sjáum blíða umhyggju hans sem lætur alla hluti samstarfa okkur til góðs munum við fagna af óútmálanlegri og dýrðlegri gleði. BS2 430.4

Kvöl getur ekki verið til í andrúmslofti himinsins. Á heimili endurleystra verða engin tár, engar jarðarfarir, engin sorgarklæði. „Og enginn borgarbúa mun segja: ég er sjúkur. Fólkið, sem þar býr, hefur fengið fyrirgefning misgjörða sinna.” Jes. 33, 24. Ein voldug flóðalda hamingjunnar mun flæða og hækka eftir því sem eilífðin heldur áfram. BS2 430.5

Það mun ekki líða á löngu þar til við sjáum hann sem öll okkar von um eilíft líf snýst um. Í návist hans munu allar reynslur og þjáningar þessa lífs hverfa. „Varpið því eigi frá yður djörfung yðar er mikla umbun hefir því að þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér úr býtum berið fyrirheitið er þér hafið gjört Guðs vilja. Því að innan harla skamms tíma mun sá koma sem koma á og ekki dvelst honum.” Hebr. 10, 35—37. Lítið upp, lítið upp og látið trú yðar stöðugt vaxa. Látið þessa trú leiða ykkur á hinum þrönga vegi sem liggur gegnum borgarhlið Guðs inn í hið ókomna, hina víðu, takmarkalausu framtíð dýrðarinnar sem er ætluð endurleystum. „Þreyið því, bræður, þangað til Drottinn kemur. Sjá, akuryrkjumaðurinn bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum, þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn. Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar því að koma Drottins er í nánd.” Jak. 5, 7. 8.1 BS2 430.6

„Það er ennþá ekki orðið bert, hvað vér munum verða. Við vitum að þegar hann birtist munum vér verða honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er.” BS2 431.1

Þegar Kristur lítur á afleiðingar verka sinna mun hann hljóta laun sín. Í hinum mikla múg sem enginn maður gat tölu á komið og sýndur er „koma fram fyrir dýrð Guðs lýtalaus í fögnuði” mun hann sem hefur endurleyst okkur með blóði sínu og kennt okkur með lífi sínu „sjá og seðjast af þekking sinni vegna þeirra hörmunga sem sál hans þoldi.”6

BS2 431.2

Hvatningarorð á kveðjustundu

Ég býst ekki við að lifa mikið lengur. Starfi mínu er næstum lokið ... ég býst ekki við að hafa meiri vitnisburði handa fólki okkar. Hinir traustu menn okkar vita hvað er gott til að hefja upp og byggja upp starfið. En með kærleika Guðs í hjartanu þurfa þeir að grafa dýpra og dýpra í það sem Guðs er.7 BS2 431.3

Þegar ég fer yfir liðna sögu okkar eftir að hafa stigið hvert framfaraskref til núverandi stöðu get ég sagt, lof sé Guði! Þegar ég sé það sem Drottinn hefur gert fyllist ég undrun og trausti á Kristi sem leiðtoga. Við höfum ekkert að óttast varðandi framtíðina nema það að við gleymum því hvernig Guð hefur leitt okkur og fræðslu hans í liðinni sögu okkar.8 BS2 431.4

* * * * *