Daglegt Líf

102/366

Ó, GUÐ, HJÁLPA MÉR Á HÆRRA SVIÐ, 11. apríl

Heyr, ó, Guð hróp mitt, gef gaum að bœn minni. Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín þegar hjarta mitt vanmegnast. Flyt þú mig upp á þann klett sem annars vœri mér of hár. Þú ert orðinn mér hœli, öruggt vígi gegn óvinum. Sálm. 61, 1-3 DL 107.1

Hafið þið nokkurn tíma horft á fálka elta hrædda dúfu? Eðlishvötin hefur kennt dúfunni, að fálkinn verði að ná hærri flughæð en fórnardýrið til þess að hann geti hremmt bráð sína. Þess vegna stígur hún hærra og hærra upp í himinblámann með fálkann sífellt á eftir sér sem reynir að ná yfirhöndinni. En það er til einskis. Dúfan er örugg svo lengi sem hún lætur ekkert stöðva sig í fluginu eða draga sig til jarðar. En hiki hún eða lækki flugið mun hinn árvakri óvinur hennar steypa sér yfir fórnardýr sitt. Við höfum aftur og aftur horft á slíkan viðburð með öndina í hálsinum og samúð okkar öll með dúfunni. Hve hrygg hefðum við verið að sjá hana verða hinum grimma fálka að bráð! DL 107.2

Við eigum fyrir höndum hernað — ævilanga baráttu við Satan og ginnandi freistingar hans. Óvinurinn mun nota hverja blekkingu og hver rök til að fjötra sálina og við verðum að sýna einlæga og óhvikula viðleitni til þess að vinna kórónu lífsins. Við megum ekki leggja hertygin til hliðar eða yfirgefa orustuvöllinn fyrr en við höfum unnið sigur og getum fagnað sigri í endurlausnara okkar. DL 107.3

Við erum örugg svo lengi sem við höldum áfram að beina sjónum okkar að höfundi og fullkomnara trúar okkar. En kærleikur okkar verður að vera til þess sem er hið efra, ekki þess sem er á jörðu. Við verðum, fyrir trú, að komast hærra og hærra í því að afla okkur náðargjafa Krists. Með því að íhuga daglega óviðjafnanlega fegurð hans hljótum við að vaxa meir og meir til dýrlegrar myndar hans. Meðan við þannig lifum í samfélagi við himininn mun Satan leggja net sín fyrir okkur til einskis. 27 DL 107.4