Daglegt Líf
HAMINGJUSAMASTA FÓLK VERALDAR, 6. júní
Sæl er sú þjóð sem á Drottinn að Guði. Sálm. 144. 15 DL 163.1
Ef þið viljið finna hamingju og frið í öllu, sem þið gerið, verðið þið að gera allt með dýrð Guðs í huga. Ef þið viljið hafa frið í hjörtum ykkar verðið þið að leitast við af einlægni að líkja eftir lífi Krists. Þá mun ekki vera nein þörf fyrir uppgerðar glaðværð eða að þið leitið skemmtana til að láta eftir hroka og hégóma heimsins. Við það að gera rétt munuð þið eiga rósemi og hamingju sem þið munið aldrei eignast á vegi ranglætisins. Jesús tók á sig mannlegt eðli, lifði bernsku, æsku og unglingsár svo að hann gæti vitað hvernig ætti að setja sig í spor allra og veitt öllum börnum og æskufólki eftirdæmi. Hann þekkir freistingar og veikleika barna. Hann hefur í kærleika sínum opnað lind ánægju og gleði þeirri sál, sem treystir honum. Með því að leitast við að heiðra Krist og fylgja eftirdæmi hans geta börn og æskufólk verið sannarlega hamingjusöm. Þau geta fundið ábyrgðarskyldu sína í því að starfa með Kristi að því að frelsa sálir. Ef ungmennin finna til ábyrgðar sinnar gagnvart Guði munu þau vera hafin upp yfir allt það sem er smásmugulegt, eigingjarnt og óhreint. Slíkum mun lífið vera þýðingarmikið. Þeir munu skilja að þeir hafa eitthvað dýrlegt að lifa fyrir. Það mun hafa þau áhrif á ungmennin að gera þau einlæg, glaðvær og sterk undir öllum byrðum, vonbrigðum og erfiðleikum lífsins eins og hið guðlega eftirdæmi þeirra var... Ég sárbæni ykkur um að rækta ávallt ábyrgðartilfinningu gagnvart Guði. Meðvitundin um það að þið eruð að gera það, sem Guð getur mælt með, mun gera ykkur sterk í styrk hans. Og með því að líkja eftir fyrirmyndinni getið þið eins og hann vaxið að visku og náð hjá Guði og mönnum. 17 DL 163.2
Þeir sem gera Guð fyrstan, síðastan og bestan í öllu eru hamingjusamasta fólkið í heiminum. 18 DL 163.3