Boðskapur til safnaðarins, vol. 2

28/32

Kafli 62— Sáldunartími

Postulinn hvetur bræðurna og segir: „Styrkist nú héðan í frá í samfélaginu við Drottin og í krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs til þess að þér getið staðist... á hinum vonda degi og getið að öllu yfirunnu staðist.” Ó hvílíkur dagur er framundan! Hvílík sáldun mun verða meðal þeirra sem segjast vera börn Guðs! Hina ranglátu mun vera að finna á meðal hinna réttlátu. Um þá sem hafa mikið ljós og hafa ekki gengið í því mun lykjast myrkur samsvarandi því ljósi sem þeir hafa forsmáð. Við þurfum að taka til greina lexíuna sem felst í orðum Páls: „Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum til þess að ég sem hefi prédikað fyrir öðrum skuli ekki sjálfur vera gjörður rækur.” Óvinurinn vinnur ötullega að því að kanna, hverjum hann geti bætt við í raðir fráfallsins, en Drottinn kemur skjótt. Innan tíðar mun mál hvers manns verða ákvarðað um eilífð. Þeir sem hafa verk í samræmi við það ljós sem Guð í náð sinni hefur gefið þeim, munu vera taldir Drottins megin.1 BS2 403.1

Hreinsunardagar safnaðarins nálgast hröðum skrefum. Guð vill eiga fólk sem er hreint og trútt. Í hinni miklu sáldun sem skjótlega mun eiga sér stað munum við betur geta mælt styrk Israels. Táknin opinbera það að tíminn sé nálægur þegar Drottinn mun sýna að blævangur hans er í hendi hans og að hann mun hreinsa gólf sitt gagngert.2

BS2 403.2

Sigur fyrir þá sem leita frelsunar

Mér var sýnt fólk Guðs og ég sá það stórlega hrist. Sumir trúarsterkir menn hrópuðu til Guðs með sárum kveinstöfum. BS2 403.3

Ég sá að sumir tóku ekki þátt í bænagjörðinni. Þeir virtust kærulausir og sinnulausir. Þeir stóðu ekki gegn myrkrinu sem umlukti þá og það lagðist um þá eins og þykkt ský. Englar Guðs yfirgáfu slíka menn og ég sá þá flýta sér til að aðstoða þá sem voru að berjast af öllum kröftum til að standast gegn illum englum og reyna að hjálpa sér með því að kalla á Guð með þolgæði. En englarnir yfirgáfu þá sem sýndu enga viðleitni til sjálfsbjargar og ég missti sjónar af þeim. Hinir, þeir sem báðu, héldu áfram áköfum kveinstöfum sínum og þá barst þeim stundum ljósgeisli frá Jesú til þess að hvetja þá og lýsa upp ásjónu þeirra. BS2 403.4

Ég spurði um merkingu sáldunarinnar sem ég hafði séð og mér var sýnt að hún mundi verða vegna hins beina vitnisburðar sem var fluttur Laódíkeumönnum að ráði vottsins trúa og sanna. Hann mun hafa sín áhrif á hjarta þess sem tekur við og mun leiða hann til þess að hefja upp staðalinn og mæla fram hinn beina sannleika. Sumir munu ekki þola þennan skýra vitnisburð. Þeir munu rísa upp gegn honum og það mun valda sáldun meðal Guðs fólks. BS2 404.1

Vitnisburður vottsins sanna hefur ekki að hálfu leyti verið tekinn til greina. Hinn alvarlegi vitnisburður sem örlög safnaðarins hvíla á hefur ekki verið tekinn hátíðlega ef ekki alveg misvirtur. Þessi vitnisburður verður að hafa djúpa iðrun í för með sér og allir sem í sannleika veita honum viðtöku munu hlýða honum og hljóta hreinsun. BS2 404.2

Engillinn sagði: „hlýðið á.” Eftir stutta stund heyrði ég rödd sem hljómaði líkt og leikið væri á mörg hljóðfæri, öll í fullkominni samstillingu, indæl og samræmd. Það var fegurri músík en ég hafði nokkurn tíma heyrt. Hún virtist vera full af náð, samúð og háleitum og heilögum fögnuði. Það fór straumur um alla veru mína. Engillinn sagði: „Sjáið!” Athygli mín beindist þá að hópnum sem ég hafði séð sem var svo kröftuglega sáldaður. Ég sá þá sem ég hafði áður séð gráta og biðja með kveinstöfum. Hópur verndarengla kringum þá hafði verið tvöfaldaður og þeir voru íklæddir kerklæðum frá hvirfli til ilja. Þeir gengu fram í nákvæmri röð eins og sveit hermanna. Af ásjónu þeirra mátti lesa um hina hörðu baráttu sem þeir höfðu verið í og þá skelfilegu kvöl sem þeir höfðu orðið að þola. Þó að úr andlitsdráttum þeirra mætti lesa alvarlega innri baráttu, skein samt núna ljós og dýrð himinsins. Þeir höfðu öðlast sigur og það leiddi fram hjá þeim dýpsta þakklæti og heilagan fögnuð. BS2 404.3

Talan í þessum hóp hafði minnkað. Sumir höfðu verið sáldaðir í burtu og skildir eftir. (Sjá Opinberunarbókina 4, 15—17.) Hinir sinnulausu og kærulausu, sem slógust ekki í hóp með þeim sem mátu nógu mikils sigur og hjálpræði til þess að biðja áfram af þolgæði og með sárum kveinstöfum, öðluðust ekki endurlausnina og voru skildir eftir í myrkri en í stað þeirra komu strax aðrir sem gripu sannleikann og fylltu töluna. Enn þrýstu illu englarnir sér að þeim en gátu ekki haft neitt vald yfir þeim. (Sjá Efesusbréfið 6,12—18.) BS2 404.4

Ég heyrði þá sem klæddir voru hertygjunum tala sannleikann af miklum mætti. Það hafði áhrif. Ég sá þá sem höfðu verið bundnir. Sumar eiginkonur höfðu verið bundnar af eiginmönnum sínum og sum börn höfðu verið bundin af foreldrum sínum. Hinir heiðvirðu sem hafði verið haldið eða þeir hindraðir í að heyra sannleikann tóku nú á móti honum með ákafa. Allur ótti við venslamenn var horfinn. Sannleikurinn einn var hafinn upp í hugum þeirra. Hann var kærari og dýrmætari en lífið. Þá hafði verið að hungra og þyrsta eftir sannleikanum. Ég spurði hvað hefði komið á þessari miklu breytingu. Engill svaraði: „Það er haustregnið, endurlífgunartímarnir frá Drottni, háa hróp þriðja engilsins.” BS2 405.1

Mikið vald fylgdi þessum útvöldu. Engillinn sagði: „Sjáið!” Athygli mín beindist að hinum óguðlegu eða vantrúuðu. Þar var allt á iði. Áhuginn og krafturinn sem var samfara fólki Guðs hafði vakið þá og gert þá reiða. Umrót og fát mátti sjá alls staðar. Ég sá að ráðstafanir voru gerðar til að hamla í gegn þessum hópi sem hafði kraft og ljós Guðs. Myrkrið varð dimmara umhverfis hann. Samt stóðu þeir með blessun Guðs og treystu á hann. Ég sá að þeir voru hrjáðir. Næst heyrði ég þá hrópa til Guðs í ákafa og hróp þeirra hætti ekki allan daginn og nóttina. (Sjá Lúkas 18, 7. 8; Opinberunarbókin 14,14. 15.) BS2 405.2

Ég heyrði þessi orð: „Verði vilji þinn ó, Guð! Viltu opna fólki þínu undankomuleið, ef það getur vegsamað nafn þitt! Frelsa oss frá hinum heiðnu sem umhverfis okkur eru! Þeir hafa ætlað okkur að deyja en armur þinn getur veitt okkur frelsun.” Þetta er allt það sem ég get munað. Allir virtust hafa djúpa óverðugleikakennd og sýndu algjöra undirgefni undir vilja Guðs. Samt voru allir án undantekningar að biðja eins og Job í einlægni og sækjast eftir frelsun. BS2 405.3

Skjótlega eftir að þeir hófu einlæg bænaáköll sín hefðu englarnir í meðaumkun sinni farið þeim til frelsunar. En hávaxinn fyrirliði meðal englanna leyfði þeim það ekki. Hann sagði: „Vilji Guðs er enn ekki uppfylltur. Þeir verða að drekka bikarinn. Þeir verða að vera skírðir skírninni.“ BS2 405.4

Skjótlega heyrði ég rödd Guðs sem hristi himin og jörð. (Sjá Jóel 3, 16; Hebr. 12, 26; Op. 16, 17.) Það varð mikill jarðskjálfti. Byggingar skulfu og féllu niður alls staðar. Þá heyrði ég sigurhróp, hátt, skýrt og tónrænt. Ég leit á þennan hóp sem stuttu áður hafði verið í skelfingu og fjötrum. Áþján þeirra var á enda. Dýrlegt ljós skein á þá. En hvað þau voru fögur! Öll þreyta og áhyggjumerki voru horfin. Heilsa og fegurð sáust á hverjum svip. Óvinir þeirra, hinir heiðnu í kring, féllu eins og dauðir menn. Þeir gátu ekki þolað ljósið sem skein frá hinum frelsuðu og heilögu. Þetta ljós og dýrð hvíldi yfir þeim þar til Jesús sást á skýjum himinsins og hinir trúu og reyndu umbreyttust á augabragði, í einni svipan frá dýrð til dýrðar. Grafirnar opnuðust og hinir heilögu stigu upp íklæddir ódauðleika og hrópuðu: „Sigur yfir dauða og gröf!” Og þeir voru hrifnir, ásamt hinum heilögu sem á lífi voru, upp til fundar við Drottin í loftinu en á sama tíma liðu hin magnþrungnu og tónrænu hróp um dýrð og sigur frá hverri ódauðlegri tungu.3

BS2 406.1

Herirnir tveir

í sýninni sá ég tvo heri í skelfilegri baráttu. Á undan öðrum hernum var gengið með herfána sem á var merki heimsins. Á undan hinum fór hinn blóði drifni fáni Immanuels prins. Hver herfáninn eftir annan var skilinn eftir í rykinu þegar hver hópurinn af öðrum af her Drottins slóst í lið með óvininum og kynkvísl eftir kynkvísl frá röðum óvinarins slóst í hóp með fólki Guðs sem boðorðin heldur. Engill sem flaug um miðhimininn setti merki Immanúels í hönd margra á sama tíma og hinn voldugi herforingi hrópaði hárri röddu: „Komið í röðina. Þeir sem eru hlýðnir boðorðum Guðs og vitnisburði Krists taki sér stöðu. Gangið burtu frá þeim og aðskiljið ykkur og snertið ekkert óhreint og ég mun veita yður viðtöku og mun vera faðir ykkar og þið munuð vera synir mínir og dætur. Allir sem vilja komi til að hjálpa Drottni, hjálpa Drottni gegn hinum voldugu.” BS2 406.2

Nú er söfnuðurinn stríðandi. Nú horfumst við í augu við heiminn í miðnæturmyrkri nær alveg búinn að gefa sig að skurðgoðadýrkun. En dagurinn kemur þegar stríðið verður unnið og sigurinn fenginn. Vilja Guðs á að gera á jörðinni jafnt sem á himni. Þá munu þjóðirnar ekki eiga nein lög önnur en lög himinsins. Allir munu vera hamingjusamir og sameinuð fjöl- skylda, íklædd klæðum lofgjörðar og þakklætis—réttlætisskrúða Krists. Öll náttúran í ólýsanlegum yndisleik mun færa Guði stöðuga þakkargjörð og lofgjörð. Heimurinn mun verða baðaður í ljósi himinsins. Árin munu líða í gleði. Tunglsljósið mun vera sem sólarljós og sólarljósið mun vera sjöfalt skærara en það er nú. Yfir þessu sjónarsviði munu morgunstjörnurnar syngja saman og synir Guðs munu hrópa af fögnuði meðan Guð og Kristur segja: „Syndin mun ekki framar til vera og ekki heldur dauðinn.” BS2 406.3

Þetta er það sjónarsvið sem mér var sýnt en söfnuðurinn verður að berjast og mun berjast gegn ósýnilegum og sýnilegum óvinum. Verkfæri Satans í mannlegri mynd eru á baráttuvellinum. Menn hafa bundist samtökum um að vinna gegn Drottni hersveitanna. Þessi sambönd munu halda áfram þangað til Kristur mun yfirgefa meðalgöngustað sinn frammi fyrir náðarhásætinu og mun íklæðast hefndarklæðum sínum. Verkfæri Satans eru í hverri borg og eru önnum kafin við að skipa í hópa þeim sem eru gegn lögum Guðs. Bæði þeir sem segjast vera helgir menn og yfirlýstir vantrúarmenn taka sér stöðu í þessum hópum. Nú er ekki tími fyrir Guðs fólk að vera veikburða. Við höfum ekki efni á því að sofna á verðinum eitt augnablik.4 BS2 407.1