Boðskapur til safnaðarins, vol. 1
Kafli 26—Andleg áhrif á heimilinu
Við getum haft hjálpræði Guðs í fjölskyldum okkar, en við verðum að trúa til þess, lifa fyrir það og hafa stöðugt og varanlegt traust og trú á Guð. Hömlur þær, sem orð Guðs leggur á okkur, eru okkur fyrir beztu. Þær auka á hamingju fjölskyldunnar og allra í kring um okkur. Þær fága smekk okkar, helga dómgreind okkar og veita hugarró og að lokum eilíft líf. Þjónustubundnir englar munu doka við í bústöðum okkar og með gleði bera til himins tíðindin um framfarir okkar í hinu guðlega lífi. Og skrásetningarengillinn mun með gleði og hamingju gefa skýrslu sína. BS 168.1
Andi Krists mun vera varanleg áhrif í heimilislífinu. Ef menn og konur vildu opna hjörtu sín fyrir himneskum áhrifum sann¬leika og kærleika, mundu meginreglur þessar flæða aftur eins og árstraumur í eyðimörkinni og hressa alla, svo að ferskleikinn birtist, þar sem nú er bert og hrjóstrugt.1 BS 168.2
Það er mjög vanþóknanlegt í augum Guðs að vanrækja guðrækni á heimilinu og að vanrækja það að ala upp börnin. Það yrði uppi fótur og fit ef eitt af börnum þínum væri úti í straumvatni að berjast við öldurnar í bráðri lífshættu! En hvað yrði mikið lagt á sig, bænir fluttar og ákafi sýndur til að bjarga mannslífi! En þarna eru börnin þín án Krists, sálum þeirra ekki bjargað. Ef til vill eru þau jafnvel ruddaleg og ókurteis, smán fyrir aðventnafnið. Þau eru að farast án vonar og án Guðs í heiminum og þú ert kærulaus og lætur þig málið engu skipta. BS 168.3
Satan gerir allt, sem hægt er til þess að leiða fólk í burtu frá Guði, og honum tekst vel í ætlun sinni, þegar trúarlífið drukknar í viðskiptaáhyggjum, og hann getur fyllt svo huga þess af hugsuninni um viðskipti, að það taki ekki tíma til að lesa Biblíuna, að hafa einrúmsbæn og láta fórnir lofgjörðar og þakklætis brenna stöðuglega á fórnaraltarinu kvölds og morgna. En hversu fáir greina vélar erkiblekkingameistarans! En hve margir eru óafvitandi um blekkingar hans.2
BS 168.4
Guðræknisstundir kvölds og morgna
Feður og mæður, safnið börnum ykkar umhverfis ykkur kvölds og morgna og lyftið hjartanu upp til Guðs í auðmjúkri bæn um hjálp. Ástvinir ykkar eru undirorpnir freistingum. Daglega verða ungir sem eldri fyrir því, sem vekur leiðindi. Þeir sem vilja vera þolinmóðir, kærleiksríkir og glaðværir, verða að biðja. Við getum því aðeins öðlazt sigur yfir sjálfinu, að við hljótum stöðugt hjálp frá Guði. BS 168.5
Ef einhvern tíma hefur verið sú tíð, að hvert hús ætti að vera bænahús, þá er bað núna. Vantrú og efasemdir ráða ríkjum. Mikið er um óheiðarleika. Spillingin flæðir í lífsstraumi sálarinnar og uppreisn gegn Guði brýzt út í lífinu. Siðferðiskraftarnir, sem eru þrælbundnir af syndinni, eru undir ógnarstjórn Satans. Sálin verður leiksoppur freistinganna. Og maðurinn fer hvert sem erkióvinurinn leiðir hann, nema einhver sterkur armur teygi sig út til þess að bjarga honum. BS 169.1
Og samt er það svo á þessu hræðilega hættuskeiði, að sumir, sem segjast vera kristnir, hafa engar tilbeiðslustundir með fjölskyldunni. Þeir heiðra ekki Guð á heimilinu. Þeir kenna ekki börnum sínum að elska og óttast hann. Margir hafa aðskilið sig svo langt frá honum, að þeim finnst þeir vera undir fyrirdæmingu, er þeir nálgast hann. Þeir geta ekki „komið með djörfung að hásæti náðarinnar”, „upplyftandi heilögum höndum, án reiði og þrætu”. (Heb. 4, 16: 1. Tim. 2,8.) Þeir hafa ekki lifandi sam¬band við Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. BS 169.2
Sú hugmynd, að bænin sé ekki nauðsynleg, er ein af áhrifarikustu brögðum Satans til þess að eyðileggja sálir. Bæn er samfélag við Guð, lind vizkunnar, uppspretta styrks og friðar og hamingju. Jesús bað til föðurins „með sárum kveinstöfum og táraföllum”. Páll hvetur hina trúuðu til „að biðja án afláts” og gera í öllum hlutum óskir sínar kunnar Guði í bæn með beiðni og þakkargjörð. „Biðjið hver fyrir öðrum”, segir Jakob. „Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.” (Heb. 5, 7; 1. Þess. 5, 17; Jak. 5, 16.) BS 169.3
Foreldrarnir ættu að gera varnarvegg umhverfis börnin sín með einlægum og áköfum bænum. Þau ættu að biðja af fullri trú um það, að Guð muni vera með þeim og að heilagir englar hans muni vernda þau og börnin þeirra frá hinu grimmilega valdi Satans. BS 169.4
Í hverri fjölskyldu ætti að vera fastur tími fyrir guðræknisstundir kvölds og morgna. En hvað það er viðeigandi fyrir foreldra að safna börnum sínum saman áður en matar er neytt til að þakka hinum himneska föður fyrir vernd hans yfir nóttina og að biðja hann um hjálp og leiðsögn og umönnun yfir daginn! En hvað það er líka viðeigandi þegar kvölda tekur, að foreldrar og börn safnist aftur saman frammi fyrir honum og þakki honum blessanir liðins dags! BS 169.5
Á hverjum morgni skuluð þið helga ykkur og börn ykkar Guði þann dag. Reiknið ekki með mánuðum eða árum. Þau eru ekki á ykkar valdi. Einn skammvinnur dagur er ykkur gefinn. Notið stundir hans til þess að vinna fyrir meistarann eins og það væri ykkar síðasti dagur á jörðu. Leggið öll áform ykkar fram fyrir Guð og framkvæmið þau eða hættið við þau eftir því sem forsjón hans gefur til kynna. Fylgið áformum hans í stað ykkar eigin, jafnvel þótt það kostaði það, að þið yrðuð að hætta við eftirlætisverkefni. Á þann hátt mundi lífið mótast meira og meira eftir hinu guðlega fordæmi og „friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi. mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir í samfélaginu við Krist Jesúm”. Fil. 4, 7. BS 170.1
Faðirinn ætti að stjórna tilbeiðslustundunum, eða móðirin í fjarvist hans, og velja ritningargrein, sem er áhugavekjandi og auðskilin. Athöfnin skyldi vera stutt. Þegar langur kafli er lesinn og langar bænir fluttar, verður athöfnin þreytandi og öllum léttir, þegar henni lýkur. Það er vanheiður fyrir Guð, þegar tilbeiðslustundin er gerð þurr og leiðinleg, þegar hún er svo óskemmtileg og laus við að vera áhugavekjandi, að börnin óttast hana. BS 170.2
Feður og mæður, gjörið tilbeiðslustundina feykilega áhugavekjandi. Það er engin ástæða til að þessi stund sé ekki sú skemmtilegasta og ánægjulegasta á öllum deginum. Ef þið sýnið svolitla hugsun við undirbúning hennar, mun ykkur verða kleift að gera hana áhugavekjandi og gagnlega. Hafið tilbreytni í athöfninni öðru hverju. Spurningar má bera fram um þá ritningar¬grein, sem lesin var, og bera fram fáeinar einlægar tímabærar athugasemdir. Lofsöng má syngja. Bænin, sem flutt er, ætti að vera stutt og gagnorð. Sá, sem hefur orð fyrir hinum í bæninni, ætti með einföldum og einlægum orðum að lofa Guð fyrir gæzku hans og biðja hann um hjálp. Börnin ættu eftir því sem aðstæður leyfa að taka þátt í lestrinum og bæninni. BS 170.3
Eilífðin ein mun sýna það góða, sem slíkar tilbeiðslustundir hafa að geyma.3 BS 170.4